Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn


Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim síðasta miðvikudag í september ár hvert. En það er að undirlagi matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization) sem hvetur til hátíðarhalda á þessum degi ár hvert og á Íslandi er haldið upp á hann undir kjörorðunum “Holl mjólk og heilbrigðir krakkar”.

Með deginum vill matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í daglegu fæði barnanna. Í tilefni dagsins hefur leik- og grunnskólum sem óska eftir að taka þátt í deginum verið boðið upp á mjólk á Skólamjólkurdaginn og fá allir skólastjórnendur í skólum landsins sendar upplýsingar um hvernig þeir skuli bera sig að ef þeir vilja taka þátt og þiggja mjólk fyrir nemendur sína þann dag. Á undanförnum árum hafa í kringum 70.000 íslensk skólabörn drukkið um og yfir 16.000 lítra af mjólk þennan eina dag.